Til bráðabirgða

Tilgangur þessarar síðu er ekki að verða langlíf. Ég biðst afsökunar á því að notandanafn mitt birtist sem höfundarnafn við allt efni, fyrir því eru tæknilegar ástæður. Hafið samband við mig ef þið hafið spurningar eða athugasemdir: vangaveltur@yahoo.com — Vésteinn

Og þar með eru öll ESB-ríki orðin þátttakendur í NATO

Öll ríki ESB nema eitt eru ýmist með fulla aðild eða aukaaðild að NATO. Undantekningin er Kýpur. En ekki lengi úr þessu. Með stjórnarskiptum nú þegar Anastasiades forseti tekur við af Christofias sækir Kýpur um aukaaðild að NATO.

  • Evrópuvinstrið heldur því lítt á loft, en nánasti bandamaður ESB er Bandaríkin. Bandaríkin og ESB mynda efnahagslega, pólitíska og hernaðarlega blokk – köllum hana bara Blokkina, enda hefur hún lengi  verið mesta valdasamstæða heims. Hernaðararmur hennar nefnist NATO.
  • Blokkin stækkar. Í heimsvaldataflinu mikla á árunum eftir fall Múrsins hafa tvö ferli gengið samhliða yfir Evrópu: Stækkun ESB og stækkun NATO. NATO hefur oft verið skrefi á undan, en stærsti skammtur Austur-Evrópuríkja gekk þó samtímis inn í samböndin tvö, árið 2004.
  • Samstarfsþátttaka eða aukaaðild að NATO – svonefnt „Samstarf um frið“ (Partnership for Peace) – var stofnsett að frumkvæði Bandaríkjanna árið 1993. Yfirlýst markmið þess var að skapa traust í samskiptum NATO og Evrópuríkja við fyrrum Sovétríkin.
  • Í reynd er þessi samstarfsþátttaka biðsalur eða forgarður að NATO. Öll ríki gömlu Austur-Evrópu (vestan fyrrum Sovétríkja) og flest ríki Balkanskagans auk Eystrasaltsríkjanna (innan fyrrum Sovétríkja) hafa fyrst gerst aðilar að þessu „samstarfi“ og svo fullir aðilar að NATO. Balkanríki sem ókomin eru inn eru á leiðinni inn.
  • Því fylgja skyldur að vera í liði Blokkarinnar.  Dæmi: Öll ríki ESB nema dvergríkið Malta – og hingað til Kýpur – taka þátt í hernaði NATO í Afganistan. Nú mun Kýpur einnig þurfa að senda lið í hernað NATO.
  • „Samstarf um frið“ er líka hernaðarlegar þjálfunarbúðir. Samstarfsþátttaka í NATO innber að viðkomandi lönd bjóða NATO til heræfinga hjá sér og taka þátt í hernaði bandalagsins. Til dæmis, Svíðþjóð og Finnland  hafa kallað sig „hlutlaus ríki“ en eru það ekki lengur og stunda heræfingar með NATO á eigin landi og hafa tekið þátt í hernaðinum í Afganistan og Líbíu. Almenningur í þessum löndum ekki spurðar um þetta enda vitum við Íslendingar að hermál eru hafin yfir lýðræði. Eins og allt hjá NATO er „Samstarf um frið“ öfugmæli.
  • Önnur undirdeild eða forgarður að NATO eru sk. „Miðjarðarhafssamskipti“ (Mediterranean  Dialogue). Sú deild bandalagsins er fyrir Miðjarðarhafsríki utan Evrópu. Árið 2010 var svo komið að öll ekki-evrópsk ríki sem strönd eiga að Miðjarðarhafi voru komin í þessa deild nema Líbía, Sýrland og Líbanon. En sjálfstæð utanríkisstefna skal ekki liðin og því síður það að vera í „vitlausu liði“. Blokkin setti því kross yfir þessi þrjú lönd sem þýddi „valdaskipti“. Síðan hefur verið gengi í það verk. Full yfirráð yfir Miðjarðarhafi hafa mikla hernaðarlega þýðingu fyrir Blokkina, og í því samhengi verður að skoða innkomu Kýpur til þátttöku í NATO.
  • Mikilvægur þátttakandi í „Miðjarðarhafssamskiptum“ er Ísrael. Fyrir rúmri viku var Shimon Peres Ísraelsforseti í heimsókn í höfuðstöðvum NATO í Brussel og ræddi við Rasmussen um Mið-Austurlönd. Hann hlóð þar lofi á sambandið og sagði „We feel part of NATO although we are not members of NATO“ (Okkur finnst við vera hluti af NATO þó við séum ekki meðlimir).
  • Blokkin USA/ESB er á undanhaldi á efnahagssviðinu þar sem aðalkeppinauturinn, Kína, sækir fram. Blokkin veðjar þess vegna á hernaðaryfirburði sína. Ummerkin eru nokkur „heit stríð“ – í fyrrum Júgóslavíu, Írak, Afganistan, Líbíu og Sýrlandi – og fleiri „misheit stríð“ – í Malí, Sómalíu, Kongó, Pakistan, Jemen og víðar. Alls staðar stendur Blokkin að baki, ýmist með beinni þátttöku eða gegnum staðgengla. Þessi nýju nýlendustríð eru norðuramerísk-evrópsk stríð. Hernaðarstefna Blokkarinnar verður þá fyrst skiljanleg þegar hún er skoðuð sem barátta fyrir heimsyfirráðum. Sókn NATO sýnir að það markmið er ekki bara óljós draumur heldur áætlun í örri framkvæmd.

Þessi grein birtist fyrst á Vinstrivaktinni þann 9. mars sl.

Lausn fundin á verðtryggingunni: Félagsvæðing

Verðtrygging væri ekki vandamál ef það væru ekki vextir og verðbólga. Vaxta- eða gróðakrafa kapítalísks fjármálakerfis er aðalástæðan fyrir verðbólgunni. Alþýðufylkingin vill félagsvæða fjármálakerfið, reka það sem opinbera þjónustu við fólk og fyrirtæki, sem er ekki rekin í gróðaskyni heldur beinlínis með það markmið að veita hagstæða fjármálaþjónustu. Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, hélt erindi sem tekur vel á þessu: Félagsvæðing fjármálastarfseminnar. Um félagsvæðingu almennt segir í stefnuskránni okkar:

Alþýðufylkingin berst fyrir jöfnuði. Til þess er nauðsynleg umfangsmikil félagsvæðing í hagkerfinu. Með félagsvæðingu er ekki aðeins átt við ríkisrekstur eða annað félagslegt eignarhald heldur verði markmið rekstrarins annað og víðtækara en bókhaldslegur hagnaður: Hagur almennings og samfélagsins í heild verði í öndvegi, viðkomandi starfsemi lúti lýðræðislegum ákvörðunum og stefnumörkun og enginn geti haft hana sér að féþúfu.

Auk þess:

Lykilatriði er að öll fjármálastarfsemi verði félagslega rekin svo hún hætti að soga til sín stóran hluta verðmæta úr hagkerfinu til ágóða fyrir fámennan minnihluta. Þannig skapast mikið svigrúm til að reisa myndarlega velferðarkerfið við og styrkja alla innviði samfélagsins. Einnig skapast með því færi á að verðmætin skili sér til þeirra sem skapa þau með vinnu sinni, og þannig til samfélagsins. Með því að létta vaxtaklafa af vöruverði og húsnæðisskuldum almennings má bæta lífskjörin og stytta vinnutíma.

Lesið nánar um þetta og fleira í stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar

Fréttastofa Ríkisútvarpsins fjallar í dag um ýmis stefnumál Vinstri-grænna. Í fréttinni segir meðal annars þetta:

Katrín segir [þurfa] að skoða verðtrygginguna og hvernig hægt sé að draga úr hennar vægi. Þetta verði hins vegar ekki gert nema að hér verði rekin aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum og mjög skýr stefna í efnahagsmálum. Hún segir það framtíðarstefnumið að hér verði ekki verðtrygging. Það ríki hins vegar ekki nægur stöðugleiki í efnahagsmálum í dag til að hægt sé að afnema verðtryggingu í einum vettvangi. Hún segir flokkana nokkuð sammála um þetta atriði.

Ég er nokkurn veginn sammála því sem Katrín segir. Vil þó bæta við: Auðvaldið hefur aldrei og mun aldrei stuðla að stöðugleika í efnahagsmálum. Óstöðugleiki er innbyggður í það. Það er hannað til þess að safna saman auði, og þegar gróðinn minnkar verður kreppa. Ef fólk vill út úr kreppunni, og út úr óstöðugleikanum, þarf að minnka vægi auðvaldsins. Þá er hægt af alvöru að minnka vægi verðtryggingarinnar, og svo afnema hana þegar vægi hennar hefur minnkað. Ég er sammála aðhaldi — í efnahagsmálum almennt, í þeim skilningi að ég vil spara samfélaginu hinn ofboðslega kostnað af gróðadrifnu fjármálakerfi. Það hlýtur, fjandakornið, að vera hægt að eignast heimili án þess að þurfa að borga þrefalt verð. Krónuna ber að sama brunni; vandi íslensku krónunnar er að fjármálakerfið stelur annarri hverri krónu af okkur.

Það er augljóst að hér í landinu þarf að vera skýr stefna í efnahagsmálum. Samfylkingin hefur það forskot á aðra flokka, að hafa nokkuð skýra stefnu, sem snýst að miklu leyti um aðild að Evrópusambandinu, með öllu sem því tilheyrir. Ég er ósammála þeirri stefnu, en ég veit ekki til að neinn annar af gömlu flokkunum hafi alvöru efnahagsstefnu. En einn af nýju flokkunum hefur hana. Það er flokkurinn minn, Alþýðufylkingin. Lesið stefnuskrána okkar (óttist ekki, hún er stutt), þar kemur fram skýr og skorinorð stefna: Félagsvæðing, í einu orði sagt. Hún felur í sér að við þurfum að verja fullveldið af mikilli festu, efla innviði samfélagsins og lýðræðið (meðal annars efnahagslegt lýðræði) og setja fjármálaöflum miklar skorður.

Steingrími bolað út: Pólitísk eftirmæli

Þann 13. febrúar síðastliðinn greindi Sandkorn í DV frá því að mjög væri þrýst á Steingrím J. Sigfússon að víkja sem formaður VG, til þess að minnka skaðann í komandi kosningum. Fram kom að jafnframt væri þrýst á Katrínu Jakobsdóttur að gefa kost á sér í hans stað, en hún hefði tekið dræmt í það.

Þann 14. febrúar reyndi Steingrímur að bera sig vel í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins: „Ég hef ekkert annað gefið í skyn en það standi til. Ég er formaður og var kosinn á landsfundi 2011 og ég veit ekki til þess að ég hafi gefið mönnum tilefni til vangaveltna um neitt annað.“

Þann 15. febrúar fjallaði DV aftur um að reynt væri að fá Steingrím til að víkja og Katrínu til að taka sæti hans.

Þann 16. febrúar tilkynnir Steingrímur loks að hann muni ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Auðvitað sagðist hann ekki vera að bregðast við minnkandi fylgi í skoðanakönnunum – hverjum hefði nú getað dottið það í hug? – en hann trúði því samt að ákvörðun hans yrði til góðs fyrir flokkinn. Ansi er ég hræddur um að það sé of seint í rassinn gripið. Og auðvitað sagði hann, eins og hann hefur svo oft orðað það áður, að hann hefði nú aldrei ætlað að verða eilífur augnakarl í þessum stóli. Þvert á móti þætti honum vera kominn tími fyrir kynslóðaskipti.

Þá gaf Steingrímur þeim vangaveltum, að hann væri með messíasarkomplex, undir fótinn með því að viðurkenna, eins og svo oft áður, að vissulega hefði baráttan tekið sinn toll og markað sig og aðra sem hefðu staðið í henni. Þá eru þeir til sem eiga erfitt með að treysta orðum hans, og hann gaf þeim líka undir fótinn með því að segjast hafa tekið ákvörðunina hálfum mánuði fyrr. Þótt hann hefði daginn þar áður gefið í skyn að hann væri nú að hugsa um að halda áfram. Og að það hefði alls ekki verið þrýst á hann að víkja, frekar að halda áfram. Trúi hver sem vill þeim skýringum. Fyrir landsfundinum liggur annars lagabreytingartillaga frá UVG um að leggja formannsembætti niður og hafa í staðinn tvo „talsmenn“, einn af hvoru kyni. Það er varla hægt að skilja þá tillögu öðruvísi en tilboð til Steingríms um að hætta með reisn, eða hvað?

Steingrímur kveðst stoltur af verkum ríkisstjórnarinnar – og á þá væntanlega við t.d. hina ofurábyrgu og ofurlýðræðislegu ESB-umsókn, nýundirritaðan samning um stóriðju á Bakka við Húsavík, áform um þúsund milljarða króna sæstreng til rafmagnssölu til Skotlands og gjöfult og innilegt samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, svo fátt eitt sé nefnt. Hann er stoltur af þeirri ábyrgð og því raunsæi sem hann telur sig og flokk sinn hafa sýnt á ögurstund.

Það sem á hans tungumáli heitir „ábyrgð“ og „raunsæi“ er það sama og á mínu tungumáli heitir „tækifærisstefna“. Fyrir stjórnmálamann sem fylgir skýrri stefnu og hefur skýr markmið, eru völd verkfærið til ná markmiðunum. Fyrir tækifærissinnann eru völdin markmiðið. Steingrímur umhverfðist í tali, svotil á einni nóttu, þegar hann komst til valda. Áður fyrr sögðu menn að VG í stjórnarandstöðu væru bara „á móti öllu“, það væri stefnan þeirra, en það var fljótt að breytast þegar komið var í hásætið. Hvar var þá andstaðan við stóriðjustefnuna? Eða við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn? Eða staðfestan í IceSave-málinu? Eða varðstaðan um fullveldið? Öll vikin fyrir „raunsæi“ og „ábyrgð“. Steingrímur sagði það sjálfur strax árið 2009 (ég hef heimildina því miður ekki tiltæka en það kveður við svipaðan tón í setningarræðu hans frá í gær) að nú væri „ekki tími hugsjónasigra“. Þessi sakleysislegu orð segja margt og þau gáfu tóninn fyrir það sem koma skyldi hjá ríkisstjórn sem hefur gefið sig út fyrir að vera hrein en er það ekki.

Steingrímur kveður það lítt til vinsælda fallið, að vera fjármálaráðherra lands á barmi gjaldþrots. Það er allavega rétt hjá honum, að minnsta kosti ef maður, sem fjármálaráðherra, gerir annað en kjósendur manns væntu.

Hér er sannleikskorn sem ekki allir vita: Vinstrihreyfingin – grænt framboð er alls ekki á móti öllu. Hún er ekki á móti kapítalismanum. Í stefnuyfirlýsingu flokksins segir skýrum stöfum að „hreyfingin hafnar alræði markaðshyggjunnar“. Hvað segir þetta? Þetta segir ekki neitt. Þetta er vísvitandi loðið orðalag, hannað til þess að hljóma róttækt en skilur eftir nægar undankomuleiðir, svo menn geti verið „raunsæir“ og „ábyrgir“ þegar tækifærið kemur.

Steingrímur kennir græðgi, spillingu, sjúski, stráksskap og auðvitað frjálshyggjunni um kreppuna, hefur jafnvel nefnt „nýkapítalisma“ (hvað sem það nú er), en hann virðist ekki skilja að rót vandamála Íslands er kapítalisminn sjálfur, sem slíkur. Kreppan og ójöfnuðurinn eru innbyggð í hann. Kapítalisminn ber í sér böl. En Steingrímur trúir á kapítalismann, vegna þess að hann skilur hann ekki og hann er of raunsær og ábyrgur til þess að sjá að önnur hagkerfi séu möguleg. Í þessu ljósi þarf að skoða allt sem hann hefur sagt og gert. Meint endurreisn Íslands er fyrst og fremst endurreisn fjármálakerfisins. Að einhverjir fjármálamarkaðir fari að snúast aftur. Að einhver lánshæfisfyrirtæki (sem gáfu bönkunum mjög jákvæða dóma fram á haust 2008) hækki lánshæfismat Íslands. Að auka hagvöxt – sem rímar illa saman við umhverfisverndina sem hann telur sig aðhyllast. Steingrími finnst hann hafa gert það sem þurfti að gera – vegna þess að hann hreinlega veit ekki betur, sér ekki aðrar leiðir.

Ég get eiginlega ekki sleppt því að taka hér eina tilvitnun úr setningarræðu hans í gær: „Siðlaus græðgishyggja … sem einkavæðir gróðann … en vill svo þjóðnýta tapið þegar allt fer á hliðina, þá á ríkið, þá eigum við að borga. Þetta er versta hagkerfi, versta hugmyndafræði sem hefur verið fundin upp á jörðinni, sannkallaður kapítalismi andskotans.“ – Jæja, ekki andmæli ég því, en spyr um leið, ef Steingrími finnst þetta svona afleitt, hvers vegna hefur hann þá sjálfur í grófum dráttum fylgt þessari stefnu, sem hann talar svo mjög gegn? Hvers vegna hefur hann þá endurreist einkarekið fjármálakerfi, sem gengur ekki út á neitt annað en að einkavæða gróðann? Hvers vegna barðist hann á hæl og hnakka fyrir IceSave-samningum, sem eru ekkert annað en þjóðnýting á tapi?

Rétt er að það komi fram, að þótt Steingrímur sé persónugervingur sinna eigin sjónarmiða í þessum pistli, þá gildir sama gagnrýnin um fleiri, raunar um mjög stóran hluta vinstrihreyfingarinnar í heild undanfarna áratugi, hvorki meira né minna. Þegar vinstrihreyfingin hefur ekki skýra sýn á annars konar þjóðskipulag, ekki skýra stefnu, þá er hún eins og stýrislaust skip. Steingrími verður víst ekki kennt um allar pólitískar hrakfarir vinstrimanna – en þetta eru skilyrðin sem skapa leiðtoga eins og Steingrím. Leiðtoga sem leiða vinstrihreyfinguna í varnarbaráttu fyrir gömlum sigrum og í tiltekt í mesta róðaríinu sem auðvaldið kemur sér í. Krataleiðtoga sem styðja auðvaldið þegar á reynir og gera allt til að bjarga því.

Stimpillinn „á móti öllu“ (nema kapítalismanum) er, því miður, nærri lagi. Flokkurinn var hannaður fyrir varnarbaráttu gegn ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, og í þeirri varnarbaráttu var auðvelt að sameina marga. En til að sameina sem flesta þarf að hafa samnefnarann sem lægstan – með öðrum orðum, stefnuna óskýra. Þegar reynir á, er það brothætt hreyfing sem er ekki skýr um það hvað hún vill eða hvert hún ætlar. Undanfarin ár bera því sorglegt vitni.

Á blaðamannafundinum um síðustu helgi sagði Steingrímur að VG hefði „miklu hlutverki að gegna … sem merkisberi róttækrar vinstristefnu, umhverfisverndar, kvenfrelsis og félagslegrar alþjóðahyggju.“ Róttækir vinstrimenn eiga ekki gjöfult samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Umhverfisverndarsinnar boða ekki rafmagnssölusæstrent til Skotlands. Kvenfrelsissinnar svelta ekki kvennastéttir, eins og í heilbrigðiskerfinu. Og félagslegir alþjóðasinnar sækja ekki um aðild að heimsvaldasinnuðu ríkjasambandi eins og Evrópusambandinu.

Í ljósi þess sem orðið er, lætur Katrín svo til leiðast að bjóða sig fram, en með blendnum tilfinningum þó. Hún er greinilega með betri athyglisgáfu, því hún dregur ekki dul á að samstarfið í flokknum hafi gengið misjafnlega, þótt Steingrímur hafi ekki orðið var við neinn klofning. Það er ekki öfundsvert að taka við formennsku í VG eins og flokkurinn er á sig kominn, en formannsefnið reynir (eins og eðlilegt er) að bera höfuðið hátt og tala um baráttugleði. Ekki lái ég henni það, en ég hef reyndar heyrt að baráttugleði sé alls ekki það sem einkenni andann í flokknum.

Ekki eru margar vikur síðan Steingrímur sagði (ég hef heimildina ekki handbæra) að það væri nauðsynlegt að hér væri róttækur vinstriflokkur, sem ég er hjartanlega sammála – og að það væri enginn annar valkostur á vinstrivængnum – hann orðaði það þannig í viðtali við Mogga við gær, að flokkinn sé „eini handhafi svona róttækrar vinstri stefnu“

Það eru ósannindi og Steingrímur veit það vel. Hann veit vel að nú er kominn fram valkostur: Alþýðufylkingin er mætt, til að reisa við merkið sem hefur legið á jörðinni frá því áður en ég man eftir mér. Öfugt við VG hefur Alþýðufylkingin einfalda og skýra stefnu, þar sem efnahagsmál eru í fókus, aðild að Evrópusambandinu er hafnað á fortakslausan, afdráttarlausan hátt, og þar sem við gefum tóninn með sýn á félagsvæðingu í fjármálakerfinu og í öðrum innviðum samfélagsins.

Af framhaldsstofnfundi Alþýðufylkingarinnar

Á velheppnuðum framhaldsstofnfundi Alþýðufylkingarinnar sl. laugardag var stefnuskrá samtakanna samþykkt formlega, ásamt fjórum ályktunum.

Í framkvæmdastjórn voru kjörin: Claudia Overesch, Einar Andrésson, Óskar Höskuldsson, Sigríður Kristín Kristjánsdóttir, Tinna Þorvaldsdóttir, Vésteinn Valgarðsson (varaformaður) og Þorvaldur Þorvaldsson (formaður). Auk þeirra voru kjörin í miðstjórn: Björgvin Rúnar Leifsson, Gyða Jónsdóttir, Jóhannes Ragnarsson og Reynir Snær Valdimarsson.

 

Almenn ályktun framhaldsstofnfundar Alþýðufylkingarinnar 16. febrúar 2013

Öll máttarvöld auðvaldsins berjast nú hatrammri baráttu fyrir því að velta oki kreppunnar yfir á alþýðuna. Það er m.a. gert með því að koma tapi banka og stórfyrirtækja yfir á ríkissjóð og lífeyrissjóði, en einnig með beinu arðráni í formi okurlána til heimila og fyrirtækja. Bankarnir og þeirra gæðingar eru þannig á endanum á fæðukeðju auðvaldsins og gleypa allt sem ætilegt er. Til að lífvænlegt verði í landinu er alger stefnubreyting nauðsynleg. Þjóðin hefur fengið forsmekkinn af afleiðingum þess að markaður kapítalismans stjórni samfélaginu. Að óbreyttu heldur kreppan áfram í dýpri og dýpri sveiflum.

Alþýðan hefur átt í vök að verjast en verður að snúa vörn í sókn í stéttabaráttunni. Til að hagkerfið geti náð jafnvægi og þjónað samfélaginu er nauðsynlegt að félagsvæða alla innviði þess og þá ekki síst fjármálakerfið. Þannig skapast mikið svigrúm til að efla velferðina á öllum sviðum og auka jöfnuð og lífsgæði. Þetta er eina leiðin til að leysa vanda þeirra þúsunda fjölskyldna sem eru fastar í skuldafjötrum og leysa úr læðingi þau samfélagslegu gæði sem efni standa til.

 

Ályktun framhaldsstofnfundar Alþýðufylkingarinnar 16.2. 2013 um umhverfis- og auðlindamál

Þrátt fyrir nýsamþykkta rammaáætlun um raforkunýtingu hér á landi og þá almennu skoðun að auðlindir þjóðarinnar skuli vera sameign, hefur Íslandsbanki uppi áform um fjármögnun á tvöföldun raforkuframleiðslu á Íslandi næsta áratuginn. Þar með yrðu tæmdir möguleikar á frekari raforkuvinnslu í landinu. Á sama tíma eru uppi áform um að leggja sæstreng til Skotlands til að flytja út raforku til Evrópu. Allt ber þetta að þeim brunni að gera auðmönnum kleift að taka út gróða af orkuauðlindinni en velta kostnaði af gríðarlegri fjárfestingu yfir á samfélagið ásamt stórhækkun á orkuverði til almennings og framleiðslufyrirtækja. Það er undarleg forgangsröðun að undirbúa lagningu rafstrengs til Skotlands meðan bíða þarf meira en áratug eftir þriggja fasa rafstreng í Meðalland í Skaftafellssýslu.

Tilburðir auðmanna til að braska með auðlindir eru alvarleg ógn við náttúru og umhverfi, við sjálfbæra nýtingu auðlindanna og efnahag þjóðarinnar.

 

Ályktun framhaldsstofnfundar Alþýðufylkingarinnar 16.2. 2013 um friðarmál

Nú þegar 10 ár eru liðin frá innrás Bandaríkjanna, Bretlands og fleiri ríkja í Írak hafa allar verstu spár komið fram. Íraska samfélagið hefur þurft að líða miklar þjáningar og allir innviðir þess eru í rúst. Fyrir 10 árum reis upp öflug hreyfing um allan heim gegn stríðinu og fyrir friði. Þessi hreyfing hefur síðan látið mikið undan og að sama skapi hafa heimsvaldaríkin farið með vaxandi yfirgangi og ofbeldi með minnkandi mótspyrnu. Þetta á ekki aðeins við í Írak og Afganistan, heldur einnig Líbýu, Sýrland og víðar.

Kreppa kapítalismans skapar vaxandi stríðshættu um allan heim. Það er því nauðsynlegt að efla friðarhreyfinguna svo hún verði fær um að beita sér gegn stríðsátökum á byrjunarstigi.

 

Ályktun framhaldstofnfundar Alþýðufylkingarinnar 16.2. 2013 um ESB

Þegar ríkisstjórnin sótti um aðild Íslands að Evrópusambandinu var látið að því liggja að það væri sakleysisleg athugun á því hvað væri í boði í samningaviðræðum. En síðan hefur milljörðum verið eytt í aðlögun að Evrópusambandsaðildinni og mútur í formi styrkja til að afla málinu fylgis. Hvergi er hins vegar talað um að aðild að sambandinu muni kosta tugi milljarða í aðildargjald.

Svo virðist sem beðið sé eftir hentugu tækifæri til að afgreiða málið þegar þjóðin hefur fengið upp í kok af áróðri og þá verði notað sem rök að svo miklu hafi verið eytt í aðildarundirbúninginn að ekki megi láta það fara til spillis. Einnig talar Samfylkingin um aðild að ESB eins og um sé að ræða lausn á gjaldmiðilsvanda.

Aðild að Evrópusambandinu snýst hins vegar hvorki um gjaldmiðil eða möguleika á styrkjum. Þegar allt kemur til alls snýst hún um sjálfstæði þjóðarinnar og möguleika hennar á að taka lýðræðislegar ákvarðanir um framtíð sína. Kjarninn í regluverki ESB snýst um frjálshyggju og markaðsvæðingu. Allt skal keypt og selt á markaði sem mögulegt er. Þannig vilja auðmenn ESB komast yfir samfélagsleg gæði á Íslandi, auðlindir, vinnuafl og fyrirtæki, eins og í Grikklandi og öðrum ríkjum ESB. Það mun auka enn á ójöfnuð og torvelda okkur sem þjóð að breyta því og vinda ofan af markaðsvæðingunni.

Eftir kapítalismann

Plebbar höfða nú, eins og ætíð, til stjórnmálamannanna sinna um að „gera eitthvað“ í fjármálakreppunni svo við getum haldið áfram að spreða, ofneyta og keppa við hvert annað. Þeir vilja vinna meira, fá meiri laun og kaupa meira drasl. Menn leita til Evrópusambandsins og vona að það muni einhvernveginn bjarga þessum lífsstíl.

Þetta fólk er á villigötum. Kapítalisminn mun aldrei ná sér. Hann er í dauðaslitrunum; að minnsta kosti í þeirri mynd sem við erum vön. Fyrir því liggja margar ástæður, ekki síst krafa kapítalismans til fyrirtækja um stöðugan vöxt. Þetta vaxtarkapphlaup getur ekki haldið áfram endalaust, enda reiða leikmenn í kapítalísku hagkerfi sig ekki einungis á vinnuafl og tækniframfarir í leit sinni að gróða og lífi, heldur einnig hráefni. Nú stendur framboð á þessum grundvallarauðlindum á þolmörkum.

Náttúran ræður ekki við meiri kapítalisma. Ekki er hægt að auka framleiðslu að því ráði sem vaxtarkrafa kapítalismans krefur. Ef við tökum einungis kröfur bankanna um vexti á lánum, er heldur ekki nógur möguleiki á framleiðsluaukningu til að fóðra þá holu. Svo að dæmi sé tekið mun fiskframleiðsla ekki aukast á heimsvísu úr þessu. Engin fiskveiðisvæði eru lengur óhreyfð, þökk sé rányrkju frá ríkjum eins og Íslandi. Sama ríkir um landbúnað. Stöðug aukning mannfjölda krefst æ stærri landsvæða sem áður voru notuð í hráefnaframleiðslu. Framleiðsluaukning á slíkum vörum er brátt ekki möguleg heldur. Græna byltingin byggðist á olíu, og framboð hennar fer þverrandi.

Of margt fólk sem keppist um of litlar náttúruauðlindir, og þróunin er ekki í rétta átt. Kapítalisminn hefur engar innbyggðar lausnir á þessu.  Ef við viljum ímynda okkur framtíðina undir kapítalismanum, ekki horfa til Hollywood. Við skulum horfa til pappakassabyggða Sao Paolo, Nýju Delhí og Mexíkóborgar.

Okkar fyrirkomulag gengur í algjörum grundvallaratriðum á náttúruna og hin blákaldi veruleiki er, að haldi það áfram mun það gera líf á hnettinum ómögulegt. En það er svo merkilegt, eins og heimspekingurinn Slavoj Zizek benti á, að við eigum nú auðvelt með að sjá fyrir okkur útrýmingu mannkyns, en við getum ekki ímyndað okkur róttæka breytingu á samfélagskerfinu sem við búum við; að finna aðra leið er óhugsandi, jafnvel þó þessi leiði okkur í gröfina.

Kapítalisminn mun deyja. En það verður ekki sigur fyrir okkur andstæðinga hans. Því mætti líkja við brottför bandaríska hersins á Íslandi. Það var ekki sigur fyrir hernaðarandstæðinga; tilvist þeirra hafði engin áhrif á þá ákvörðun að draga herliðið út. Nei, kapítalisminn deyr algerlega af sjálfum sér.

Hvað er til ráða?
Hvað okkar hlutverk varðar getum við einungis reynt að vera framsækin: Við megum ekki grafa hausinn í sandinn og láta sem allt muni verða eins og áður. Við þurfum að breyta kerfinu frá rótum svo að líf á jörðinni verði þolanlegt. Það er það sem felst í hugtakinu róttækni; að leita að rótum vandans.

Stjórnmálaflokkar eru ekki leiðin. Fólk eyðir of miklum tíma að þræta um stjórnmálaflokka og notar of lítinn tíma í að gera eitthvað í því að bæta samfélagið, almennt.  Eitt stærsta vandamálið hjá róttæklingum er oft það að menn festast gjarnan í þrætum við sína líka, um einhvern tittlingaskít. Öll starfsorka róttæklinganna fer oft í slíkar þrætur, eða væl út í stjórnmálamenn. Ef menn notuðu meiri tíma í að hanna þann veruleika sem menn vilja og nota orkuna á uppbyggilegan hátt væri lítið sem gæti komið í veg fyrir að við myndum bylta auðvaldskerfinu. Auðvaldið, eins og önnur yfirvöld, byggist ætíð á blekkingu, enda er valdið aðeins raunverulegt ef við látum það vera raunverulegt; ef við högum okkur eins og það sé raunverulegt. Auðvaldið kann að spila með fólk, með áróðri og hótunum. Sniðgöngum það.

Núverandi mótafl við kröfur viðskiptanna eru grasrótarsamtök. Róttæk samvinnufélög, peningalaus vöru- og þjónustuskiptakerfi, permakúltúr, sjálfstæðar upplýsingaveitur o.s.frv. Við verðum að byrja nú þegar að móta stofnanir sem gera mögulegt samfélag, þar sem hagsmunir allra sem það mynda koma saman við hagsmuni náttúrunnar í heild. Vissulega er slíkt starf þyrnum stráð á meðan kerfið höktir áfram. En ef við neitum að horfa áfram og höldum kapítalismanum í öndunarvél þá eru afleiðingarnar fyrirsjáanlegar. Við þurfum að gera eins og alkarnir, að viðurkenna að við höfum ekki stjórn á kapítalismanum, hann stjórnar okkur. Við þurfum samt ekki að örvænta svo fremi sem við erum vel undirbúin þegar tíminn kemur.

Varnarlínur vegna ESB-viðræðna

Það hefur verið útbreidd skoðun að BSRB og aðildarfélög þess eigi ekki að taka afstöðu til aðildar Íslands að ESB. Ég er ósammála því. Ég tel að stéttarsamtök alþýðunnar eigi tvímælalaust að taka afstöðu í málum sem hana varðar, og sérílagi í málum sem varða stöðu stéttarsamtakanna sjálfra.

Á nýliðnu BSRB-þingi lagði ég því fram ályktunartillögu um „varnarlínur“ fyrir BSRB vegna aðildarviðræðna Íslands við ESB. Fyrirmyndin kemur frá Bændasamtökum Íslands. Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, mælti sjálf gegn tillögunni, sem hún kallaði „dulbúna ESB-ályktun“, og hvatti til áframhaldandi hlutleysis BSRB gagnvart ESB-aðild. Tillögunni var vísað frá, nánast einróma. Afstaðan í tillögu minni átti reyndar alls ekki að vera dulin. Hún samanstendur af atriðum sem ESB-aðild mundi ógna og við eigum að standa vörð um, bæði sem málsvarar vinnandi fólks og sem Íslendingar. Við eigum auðvitað að beita okkur gegn aðild ef hún stríðir gegn hagsmunum okkar.

Dæmi: Íslenskum stéttarfélögum þarf að vera tryggður samningsréttur fyrir íslenskan vinnumarkað, til að sporna gegn félagslegum undirboðum. Það er sjálfur grundvöllurinn sem félögin eru byggð á. Ef við verjum ekki samningsréttinn okkar verða íslenskir kjarasamningar marklitlir, stórfyrirtæki flytja inn undirborgaða menn frá verkamannaleigum í fátækum löndum og laun í landinu lækka. Það er gott fyrir auðvaldið en vont fyrir okkur hin.

Í annan stað þarf íslenska ríkið að ráða sjálft hvaða rekstur það stundar og hvernig. Aftur stendur það beint upp á okkur, sem málsvara opinberra starfsmanna, að hindra að vinnustaðirnir okkar séu einkavæddir eða lagðir niður með tilskipunum frá ESB.

Þessir tveir fyrstu punktar snúast um sjálfan tilgang stéttarfélaga opinberra starfsmanna.

Við þurfum sjálf að geta sett reglur um umsvif innlendra og erlendra fjármálaafla, m.a. hvort og með hvaða skilyrðum erlent fjármagn fær að sjúga arð út úr hagkerfinu. Það væri súrt í brotið ef við vildum bæta fjármálakerfið hér með félagslegum lausnum og það strandaði á reglum frá ESB.

Við eigum að hafa peningastefnu sem hentar okkur, og þar virðist evran ekki fýsilegur kostur vegna þess að Ísland hefur ekki sömu hagsveiflu og ESB, eins og Seðlabankinn hefur bent á og Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman líka. Ríki þurfa tæki til að bregðast við hagsveiflum og þegar gengisfelling er útilokuð, eru engin hagvaxtarlyf eftir nema að lækka skatta á fyrirtæki og fækka reglum um þau, m.ö.o. að skerða kaup og réttindi vinnandi fólks. Beiskur bikar gengisfallsins bjargaði því sem bjargað varð í Hruninu. Hinn kosturinn hefði verið gríðarlegt atvinnuleysi, sem er varla hægt að hugsa til enda. Að auki er eigin lánveitandi til þrautavara öryggistæki sem bætir lánshæfismat ríkja, og lækkar þar með vexti af erlendum bankalánum.

Ísland þarf sjálft að ráða sínum ríkisfjármálum. Frændur okkar Írar, Spánverjar og Grikkir eru nú með sín ríkisfjármál í þumalskrúfum ESB. Ef ríki er pínt til að minnka útgjöldin í kreppu, harðnar kreppan því minni peningar fara út í hagkerfið.

Við þurfum sjálf að ráða okkar eigin skatta- og tollamálum. Við þurfum að ráða því hvort við höfum skattþrep eða ekki, hvernig virðisaukaskattur er reiknaður, hvort við viljum vernda einhverjar atvinnugreinar með tollum o.s.frv. Til þess að við getum mótað samfélagið eins og við viljum hafa það, þurfum við að hafa þessi verkfæri í okkar höndum.

Þessi listi er auðvitað hvergi nærri tæmandi.

„Pakkinn“ sem okkur býðst er einfaldlega allur pakkinn. Aðalatriðin liggja þegar fyrir og það eru ekki veittar stórar, varanlegar undanþágur. Það er því ekkert að „kíkja í“ – og raunveruleg áhrif sjáum við auk þess ekki nema eftir margra ára aðild, eins og Írar og Grikkir hafa gert. Þá er erfiðara úr að fara en í að komast.

Um leið og „varnarlínur“ skilgreina lágmarkskröfur fyrir viðræðurnar, skýra þær og undirstrika heilan lista af ástæðum til þess að forðast aðild og hætta aðlögun – auk þess jafnvel að yfirgefa EES-samninginn líka, til að geta endurheimt sumt sem við höfum þegar tapað. Enginn er betur til þess fallinn en við, að taka ákvarðanir um okkar hag. Afstöðuleysi er óábyrgt, því málið kemur okkur við og þess vegna eigum við að taka afstöðu: ESB, nei takk.

Þessi grein birtist upphaflega í janúartölublaði Blaðs stéttarfélaganna.

Útifundur Radda fólksins á morgun laugardag

Fréttatilkynning.

Raddir fólksins boða til útifundar um stjórnarskrármálið næstkomandi laugardag, 19. janúar klukkan 15.00 á Austurvelli.

Alþingi ber að virða skýran vilja kjósenda, eins og hann kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október. Meiri hluta Alþingis ber að láta þann vilja ná fram að ganga.

Ræðumenn:

Illugi Jökulsson, rithöfundur og blaðamaður
Sigríður Ólafsdóttir, lífefnafræðingur

Á undan fundinum mun Svavar Knútur flytja nokkra söngva sinna.

Fundarstjóri: Hörður Torfason

Raddir fólksins